Ásamt því að skrifa sögur og yrkja ljóð hef ég fengist við ýmislegt annað bókmenntatengt: skrifað greinar, þýtt ljóð, haldið námskeið, flutt fyrirlestra bæði á Íslandi og erlendis, og fleira. Von bráðar mun ég setja meira á þessa síðu.


TÖFRASKINNA

Töfraskinnu unnum við Harpa Jónsdóttir fyrir Menntamálastofnun. Þetta er safn bókmenntatexta fyrir miðstig grunnskóla (miðað við 7. bekk) með áherslu á furðusögur, þ.e. fantasíur, vísindaskáldskap og fleira af því tagi. Þarna eru bæði valdir og frumsamdir textar. Snillingurinn Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson myndskreytti bókina.

Útgáfa Töfraskinnu er liður í því að uppfæra lesefni fyrir miðstigið. Í henni má t.d. finna ýmsar furðusögur, kvikmyndahandritagerð, myndasöguhandrit og grænlenska myndasögu, rannsóknarverkefni um galdra, kynstur af tröllum, íslenska þjóðsögu, jojk, umfjöllun um raunveruleikasjónvarp, vangaveltur um geimferðir, um tímann, um gullgerð og eilíft líf og dauðann, um hnattræna hlýnun og bráðnun jökla, þar er að auki nóg af ljóðum, nýjum og gömlum, þar er dvergatal Völuspár og margt fleira.

Von okkar er sú að bókin verði jafnframt liður í því að vekja upp frekari áhuga á lestri ungs fólks í skólum jafnt sem utan þeirra.