Skáldsagan Víghólar kom út haustið 2016 hjá Veröld. Bókin fékk frábærar viðtökur, einróma lof gagnrýnenda og Sagafilm þróar nú sjónvarpsþáttaröð eftir henni. Nokkrar umsagnir má lesa hér að neðan.

Svo segir aftan á kápu:
Vinnuvélar verktakafyrirtækis eru stórskemmdar í skjóli nætur. Illa útleikin lík finnast á nokkrum stöðum á landinu. Margt bendir til að þarna séu að verki aðilar úr öðrum heimi. Lögreglan fær Bergrúnu Búadóttur huldumiðil til að aðstoða við rannsókn málsins. Fljótlega kemur í ljós að myrk og máttug öfl seilast til aukinna valda bæði í Mannheimi og Hulduheimi. Bergrún og Brá, tvítug dóttir hennar, leggja af stað í ferðalag sem fljótlega umbreytist í háskaför þar sem þær þurfa að kljást við óútreiknanlega og máttuga andstæðinga. Samhliða því myndast mikil spenna í sambandi mæðgnanna sem verður til þess að leiðir þeirra skilja.


★ ★ ★ ★ „Engin venjuleg álfasaga … Spennandi og skemmtileg íslensk fantasía. Bókin er vel skrifuð … Þegar atburðarás sögunnar er komin vel af stað er bókin ein af þeim sem helst þarf að klára á einu kvöldi.“ — Vilhjálmur A. Kjartansson, Morgunblaðið

„Mjög skemmtilegur söguheimur … Ofsalega vel heppnað … Það úir og grúir af frábærum kvenpersónum … Brilliant hugmynd að vera með Ísland raunveruleikans og hulduheimana … Merkilegt að norræna glæpasagan kemur inn í [fantasíuna]; skemmtileg blanda.“ — Sunna Dís Másdóttir, Þorgeir Tryggvason og Egill Helgason, Kiljan

„Í Víghólum tekst einstaklega vel að flétta saman sígildri spæjarasögu, norrænum raunveruleika og fantasíu.“ — Rósa María Hjörvar, bokmenntir.is

„Í Víghólum Emils Hjörvars Petersen er sótti í [þjóðsagnaarfinn] og hann notaður sem krydd í æsilega sögu sem er í senn ævintýrasaga og glæpsaga með hraðri og spennandi atburðarás og trúverðugum persónum.“ — Árni Matthíasson, Morgunblaðið

„Bókin er mjög spennandi og samtvinnun fantasíu- og glæpasagnaformsins afar vel heppnuð.“ — Kristín Magnúsdóttir, Starafugl.is

„Æsispennandi saga … Persónur eru vel skrifaðar og sagan heldur dampi allan tímann. Það er mikil spenna og plottið þétt … [Hér] er um býsna skemmtilega og vel skrifaða bók að ræða, söguþráð með nokkrum áhugaverðum kollsteypum og óvæntri þróun. Emil nýtir sér vel þjóðsagnaarf Íslendinga og tengingin við hernámið í seinni heimsstyrjöld er vel nýtt.“ — Snæbjörn Brynjarsson, Stundin.is

„Emil nær að skapa einstaklega spennandi og stundum hrollvekjandi sögu sem hann fléttar í kringum íslenska þjóðtrú og nútíma glæpasögu. Þessi saga er að okkar mati fullkominn efniviður í spennandi sjónvarpsþætti.“ — Þórhallur Gunnarsson, Sagafilm

„Spennan magnast þegar líður á söguna og það verður sífellt erfiðara að láta bókina frá sér. Í heildina er Víghólar spennandi frásögn um skemmtilegan heim … Persónurnar eru fólk sem manni þykir vænt um og heldur með, töfrarnir eru heillandi og sagan sjálf grípandi.“ — Ingimar Bjarni, leikari og bóksali í Nexus


Sólhvörf er sjálfstætt framhald Víghóla sem kom út 2017 hjá Veröld. Bókin fékk einnig glimrandi dóma sem eru hér fyrir neðan. Svo segir á kápu:

Börn hverfa án ummerkja í myrku skammdeginu og lögreglan er ráðalaus. Þegar fjórða barnið hverfur eftir að faðir þess hefur verið myrtur finnast vísbendingar sem sýna svo ekki verður um villst að yfirnáttúruleg öfl eru hér að verki.

Lögreglan fær huldumiðilinn Bergrúnu Búadóttur til liðs við sig og fljótlega slæst Brá, tvítug dóttir Bergrúnar, í hópinn. Þær mæðgur fara ásamt sérfræðingum um vættir og fjölkynngi af ýmsu tagi yfir í Hulduheim í leit að börnunum.

Sólhvörf er grípandi glæpafantasía þar sem norræna spennusagan og íslensk þjóðtrú fléttast saman á einstakan hátt.


★ ★ ★ ★ „Frábær bók sem tvinnar saman íslenskum þjóðsögum við hversdagsleikann eins og við þekkjum hann … Frábært að lesa bók þar sem fleiri en ein sterk kvenhetja er áberandi … Sólhvörf á klárlega heima undir jólatrénu og ætti að vera gjöf allra sem hafa gaman af spennusögum og ævintýrum.“ EJ, Nörd norðursins.is „Emil Hjörvar Petersen er að festa sig í sessi sem eitt helsta fantasíuskáld Íslendinga … [Textinn er] ljómandi kvikur og skemmtilegur þegar hröð atburðarásin tekur völdin.“ RMH, Bókmenntaborgin.is „Vel skrifuð og spennandi glæpafurðusaga sem vinnur með þjóðsagnaarfinn á áhugaverðan og skapandi hátt.“ BB, Fréttablaðið „Mjög vel heppnuð og grípandi … einstaklega skemmtileg lesning þegar jólapakkarnir hafa verið nýopnaðir.“ SB, Stundin.is


Nornasveimur er þriðja bókin um mæðgurnar Bergrúnu og Brá. Hún kom út hjá Veröld 2018. Líkt og hinar tvær fékk bókin afar jákvæðar viðtökur. Svo segir á kápu:

Á Jónsmessunótt er norn myrt í Trékyllisvík á Ströndum. Fórnarlömb galdrabrenna ganga aftur. Illskeytt og dularfull kynjaskepna ræðst til atlögu. Og válegir andar eru á sveimi. Yfirnáttúrudeild rannsóknarlögreglunnar þarf að takast á við skelfilegt ástandið með aðstoð huldumiðilsins Bergrúnar Búadóttur og Brár, dóttur hennar. Samhliða því að kljást við ókennileg öfl þurfa mæðgurnar að horfast í augu við eigin breyskleika og innri ógnir.

„Engin venjuleg glæpasaga, með galdraívafi og ýmsum hryllingi. Þetta er flott fantasíubók, bráðskemmtileg og þrælspennandi.“ — Guðríður Haraldsdóttir í Vikunni og Mannlífi


Sögu Bergrúnar og Brár er ekki lokið. Fjórða og síðasta bókin er í vinnslu.