janúar 2017 – september 2017

  • Margt hefur á daga mína drifið það sem liðið er af árinu. Við eignuðumst son í júlí sem heitir Þrándur Alvar og er annað barnið okkar. Fyrir það skrifaði ég eins og brjálæðingur, lauk nýrri skáldsögu, Sólhvörf, sem er sjálfstætt framhald Víghóla og kemur út hjá Veröld í október. Lauk því að skrifa handritið að leikjabókinni Stjörnuskífan sem er nú í lokavinnslu hjá Gebo Kano ehf. og ætti að koma út í lok árs eða rétt eftir áramót. Lauk smásögunni „Kynjaskepnan“ sem Veröld og ég gáfum sem rafbók. Það má nálgast söguna hérna á síðunni.
  • Er núna byrjaður á þriðju bókinni um mæðgurnar Bergrúnu og Brá og farinn að huga að fleiri verkefnum.
  • Í ágúst fór ég á Worldcon í Helsinki, en það er ein stærsta furðubókmenntahátíð heims. Ég kom þar fram sem rithöfundur og fulltrúi íslenskra furðusagna. Hér er prófíllinn.
  • Kennslubókin Töfraskinna kom út í janúar síðastliðnum. Hana vann ég í samstarfi við Hörpu Jónsdóttur.
  • Ég kem til Íslands í lok október, þegar Sólhvörf koma út og fylgi henni eftir í þrjár vikur.

desember 2016 – janúar 2017

  • Gagnrýnendur Kiljunnar fjölluðu um Víghóla og þau voru afar jákvæð: „Mjög skemmtilegur söguheimur … Ofsalega vel heppnað … Það úir og grúir af frábærum kvenpersónum … Brilliant hugmynd að vera með Ísland raunveruleikans og hulduheimana … Merkilegt að norræna glæpasagan kemur inn í [fantasíuna]; skemmtileg blanda.“
  • Gerði nýjan samning við Veröld. Sjálfstætt framhald Víghóla kemur út fyrir jól. Mæðgurnar Bergrún og Brá mæta aftur til leiks, þær fást við nýtt mál og leggjast í nýjar svaðilfarir. Um þessar mundir er ég á kafi í sögunni. Titilinn afhjúpa ég síðar …
  • Einnig vinn ég í tveimur smásögum og byrja brátt á lokavinnslu handritsins að Stjörnuskífunni, leikjabók sem ég og Gebo Kano vinnum saman að.
  • Mér voru veitt starfslaun úr launasjóði rithöfunda til 6 mánaða. Orð fá ekki lýst hversu þakklátur ég er. 
  • Skáldsagan Víghólar, sem Veröld gaf út í október síðastliðnum, hefur fengið alveg hreint frábærar viðtökur. Gagnrýnendur lofa bókina, hún hlaut 3. verðlaun í flokki ungmennabóka (young adult) hjá bóksölum, Árni Matt hjá Mogganum valdi hana sem ungmennabók ársins og ég gerði samning við Sagafilm; þau ætla að þróa sjónvarpsþáttaröð eftir bókinni. Lesa má meira um Víghóla hér.
  • Töfraskinna, sem ég og Harpa Jónsdóttir unnum fyrir Menntamálastofnun, er komin út og hefur verið tekin inn í kennslu á miðstigi grunnskóla. Þetta er lesbók í íslensku með áherslu á fantasíur og vísindaskáldskap.
  • Furðusagnahátíðin Icecon fór fram helgina 28.-30. október í Iðnó. Þetta gekk framar vonum, allir voru afar sáttir, skipulagsnefndin átti mjög gott samstarf og það er öruggt að hátíðin verði aftur haldin 2018.

ELDRI FRÉTTIR (2015-2016)

  • Spennan magnast. Það styttist í útgáfu á nýju skáldsögunni. Von bráðar mun ég fá handritið aftur eftir síðasta yfirlestur ritstjóra. Útgáfudagur er í október.
  • Undirbúningur fyrir Icecon: furðusagnahátíð á Íslandi er í algleymingi.
  • Ég og hugbúnaðagerðin Gebo Kano ehf fengum framhaldsstyrk úr Þróunarsjóði námsgagna til að ljúka rafbókarleiknum Stjörnuskífan: uppfinningaflakk á Gullöld íslams. Áætluð útgáfa er skömmu eftir áramót.
  • Ný skáldsaga kemur út fyrir jól! Skrifaði undir samning við Bjart & Veröld. Áætlaður útgáfutími er seinni hluti október. Sit því við skriftir núna, en handritinu ber mér að skila til ritstjóra í júní. Sagan gerist ekki í heimi Sögu eftirlifenda, heldur öðrum sagnaheimi sem ég hef verið að þróa undanfarin ár. Meira um það þegar nær dregur.
  • Er í skipulagsnefnd IceCon 2016 ásamt frábærum hópi fólks (m.a. öðrum furðusagnahöfundum). IceCon er fantasíu- og vísindasagnahátíð haldin að fyrirmynd erlendra conventions. Heiðursgestir eru verðlaunahöfundarnir Elizabeth Bear (USA) og Karin Tidbeck (Svíþjóð). Hátíðin verður haldin í Iðnó dagana 28.-30. október. Skráning er hafin.
  • Tók þátt í viðburðinum Mýtureisur / Mythic Journeys á vegum Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO ásamt Sjón og bandaríska fantasíu- og sci fi höfundinum Kij Johnson, þar sem við ræddum meðal annars um goðsagnir og þjóðsögur í verkum okkar, um umbreytingu landslags í frásagnir og stöðu fantasíunnar. Vel mætt og vel heppnað!
  • Ritstýrði skáldsögu fyrir bókaútgáfuna Skruddu. Bókin kemur út í sumar.
  • Var svo lánsamur að vera veitt starfslaun í 3 mánuði úr launasjóði rithöfunda. Fyrir utan góðan ferðastyrk sem ég fékk úr sjóðnum 2013 er þetta í fyrsta sinn sem ég fæ listamannalaun. Ég er gífurlega þakklátur því það er alls ekki sjálfsagt að fá úthlutað.
  • Það er feikinóg að gera og það er gott. Aðallega vinn ég að nýrri skáldsögu, handriti að rafbókaleik og nokkrum smásögum (sem gætu safnast saman í smásagnasafn). Einnig ritstýri ég skáldsögu fyrir bókaforlag. Er sem sagt í miklum skrifgír og því ekki eins mikið á samfélagsmiðlum.
  • Í október tók ég þátt í MalCon, ráðstefnu um fantasíur og sci fi í Malmö. Þar var ég á pallborðsumræðum ásamt tveimur sænskum rithöfundum, Jenny Milewski og Pål Eggert.
  • Var boðið að vera einn af íslensku höfundunum á Bókmenntahátíð í Reykjavík, sem haldin var í september síðastliðnum. Þar var ég í góðra höfunda hópi, íslenskra sem erlendra. Tók þátt í pallborðsumræðum föstudaginn 11. september ásamt Vilborgu Davíðsdóttur og David Mitchell. Þóra Arnórsdóttir stýrði umræðum. Hér má horfa á upptöku
  • Fékk styrk úr Þróunarsjóði námsgagna til að vinna sögutölvuleik í samstarfi við tölvuleikjaframleiðandann Gebo Kano ehf. Vinn í sögunni akkúrat núna.
  • Archipelacon. Var á samnorrænni ráðstefnu um fantasíur og sci fi í júní síðastliðnum, haldin á Álandseyjum. Las þar upp úr Sögu eftirlifenda, hélt fyrirlestur um þríleikinn, flutti fyrirlestur um íslensku furðusagnasenuna ásamt Alexander Dan, var tekinn í tvö viðtöl, stjórnaði tveimur pallborðsumræðum, flutti fræðifyrilestur um goðsögur í póst-apokalyptískum sögum, og hitti að sjálfsögðu góða félaga og kynntist nýjum. Heiðursgesturinn var enginn annar en George R. R. Martin, höfundur A Song of Ice & Fire (Game of Thrones). Ferðin var styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta. Stutta myndaseríu má sjá á Facebook-síðu þríleiksins.
  • Fékk kynningarþýðingarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir Sögu eftirlifenda: Níðhögg, þ.e. að borga þýðanda til að þýða nokkra kafla á ensku. Steingrímur Teague þýddi þá snilldarlega.
  • Rafbækur. Allar rafbækur Sögu eftirlifenda eru tilbúnar, bæði á ePub og Mobi. Hægt er að kaupa ePub á Ebækur.is, Forlagid.is og Eymundsson.is. Mobi-formið er hægt að nálgast á Amazon.
  • Skilaði nýverið af mér handriti að námsbók og kennsluleiðbeiningum til NámsgagnastofnunarTöfraskinna heitir bókin, hún er unnin í samstarfi við Hörpu Jónsdóttur, og kemur út á næsta ári. Þetta eru bókmenntir fyrir miðstið grunnskóla, með áherslu á fantasíur og vísindaskáldskap. Minn hluti af samningnum var gerður við fyrirtækið mitt, SagaText
  • Skrifaði undir umboðssamning við Krok Publishers. Er þar af leiðandi með umboðsmann sem sér um alla Austur-Evrópu.
  • Þriðja og síðasta bók þríleiksins, Saga eftirlifenda: Níðhöggur, kom út fyrir síðustu jól. Hún er til sölu í öllum betri bókabúðum, sjá t.a.m. á Eymundsson.is.
  • Ætar kökuskreytingar, þriðja ljóðabókin mín, kom út hjá Meðgönguljóðum í fyrra.
  • Refur, önnur ljóðabókin mín, kom út í Úkraínu í fyrra hjá Krok Publishers. Var boðið að koma fram á alþjóðlegu bókmenntahátíðinni í Lviv og fylgja bókinni eftir. Það var ansi magnað.
  • Í fyrra hafði ég umsjón með verkefninu Furður í Reykjavík á Lestrarhátíð í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Um var að ræða fyrirlestraröð og ritsmiðjur með áherslu á furðusögur (fantasíur, vísindaskáldskap, hrollvekjur o.s.frv.)