• Home
  • /Emil Hjörvar Petersen

Emil Hjörvar Petersen

Hver er ég?

Ég ólst upp í Kópavogi, byrjaði að skrifa frekar snemma, lærði bókmenntafræði og ritstjórn og útgáfu í háskóla, og hef starfað við ýmislegt. Sem stendur er ég svo lánsamur að geta sinnt ritstörfum og tengdum verkefnum í fullu starfi.

Ég hóf rithöfundaferilinn með útgáfu tveggja ljóðabóka með árs millibili: Gárungagap og Refur (Nykur, 2007 og 2008). Bækurnar hlutu góðar viðtökur, góða dóma og mér voru veittir nokkrir styrkir.

Þá hóf ég að skrifa býsna stórt verk, sem ég hafði verið með í maganum í nokkur ár: þríleikinn Sögu eftirlifenda sem fjallar um æsina sem lifðu af Ragnarök. Skáldsögurnar þrjár (Höður og Baldur, Heljarþröm og Níðhöggur) komu út undir merkjum höfundaforlagsins Nykurs á árunum 2010-2014. Viðtökur hafa verið framar vonum, sagan hefur vakið töluverða athygli og verið lesefni í framhaldsskólum og Háskóla Íslands.

Þriðja ljóðabókin mín, Ætar kökuskreytingar, kom út hjá Meðgönguljóðum (Partus Press) árið 2014, auk þess sem bókin Refur var gefin út í Úkraínu hjá Krok Publishers.

Ég hef lesið upp víðast hvar og verið virkur fyrirlesari um bókmenntir og skapandi skrif bæði hérlendis og erlendis. Hef til dæmis unnið með Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, skrifað greinar í bókmenntatímarit, fengið allmarga styrki sem tengjast ritstörfunum, hannað og skrifað námsefni fyrir skóla, komið fram á ráðstefnum erlendis, m.a. á Swecon, Worldcon og ICFA, sem allt eru bókmenntaráðstefnur um fantasíur og vísindaskáldskap. Mér var boðið að vera einn af íslensku höfundunum á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2015. Ég er einn af stofnendum Icecon: furðusagnahátíðar á Íslandi. Og fleira.

Í október 2016 kom út hjá Veröld skáldsagan Víghólar. Hún gerist í sagnaheimi sem ég byrjaði að þróa meðfram skrifum á síðustu bók þríleiksins; sagnaheimi sem byggir á hliðstæðu Íslandi þar sem heimar vættanna eru raunverulegir en afar fáir geta sett sig í tengsl við þá. Segja má að sagan sé blanda af fantasíu, sakamálasögu og íslensku raunsæi. Aðalpersónurnar eru mæðgurnar Bergrún og Brá, staurblankur miðill og rótlaus dóttir hennar. Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar, bókin fékk einróma lof gagnrýnenda og Sagafilm þróar nú sjónvarpsþáttaröð eftir henni. Ég er ráðgjafi fyrir sjónvarpsþættina. Hér má lesa meira um bókina.

Árin 2017 og 2018 komu Sólhvörf og Nornasveimur út hjá Veröld, en bækurnar eru sjálfsæð framhöld Víghóla og fengu einnig glimrandi dóma. Sögu mæðgnanna Bergrúnar og Brár er ekki lokið. Að minnsta kosti tvær bækur eru eftir. Ég hafði byrjað á fjórðu bókinni en ákvað að snúa mér að annarri sögu. Ég ráðgeri að fjórða bókin komi út á næstu árum.

Árið 2018 kom út rafræna og gagnvirka leikjabókin Stjörnuskífan, sem er samstarfsverkefni mitt og hugbúnaðagerðarinnar Gebo Kano. Við erum á lokametrunum með nýja leikjabók sem heitir Sögusteinninn.

Um þessar mundir vinn ég að tveimur nýjum en ólíkum skáldsögum. Það kemur brátt í ljós hvora ég klára á undan. Ásamt því vinn ég jafnt og þétt að nýrri ljóðabók og vinn hugmyndavinnu fyrir fjórðu glæpafantasíuna og mögulegt framhald Sögu eftirlifenda.