Á vef Bókmenntaborginnar má finna sérstaka höfundarsíðu um mig. Þar eru æviágrip, umfjallanir um verkin og ítarlegri texti frá mér um ritstörfin.
En ég ólst sem sagt upp í Kópavogi, byrjaði að skrifa frekar snemma, lærði bókmenntafræði og ritstjórn og útgáfu í háskóla, og hef starfað við ýmislegt. Sem stendur er ég svo lánsamur að geta sinnt ritstörfum og tengdum verkefnum í fullu starfi.
Ég hóf rithöfundaferilinn með útgáfu tveggja ljóðabóka árin 2007 og 2008. Þær hlutu ansi góðar viðtökur. Þá hóf ég að skrifa býsna stórt verk, sem ég hafði verið með í maganum í nokkur ár: þríleikinn Sögu eftirlifenda sem fjallar um æsina sem lifðu af Ragnarök og svaðilfarir þeirra í heimi sem þeir misstu stjórn á. Blanda af post-apocalyptic og fantasíu. Skáldsögurnar þrjár (Höður og Baldur, Heljarþröm og Níðhöggur) komu út undir merkjum höfundaforlagsins Nykurs á árunum 2010-2014. Viðtökur hafa verið framar vonum, sagan hefur vakið töluverða athygli, verið talin brautryðjendaverk og verið lesefni í framhaldsskólum og Háskóla Íslands. Nú er í bígerð afar spennandi verkefni sem þríleiknum tengist, nokkuð sem hefur verið á takteinum í nokkur ár, nokkuð sem ég má ekki tala strax um, en vonandi bráðum.
Þriðja ljóðabókin mín, Ætar kökuskreytingar, kom út hjá Meðgönguljóðum (Partus Press) árið 2014, auk þess sem bókin Refur var gefin út í Úkraínu hjá Krok Publishers.
Ég hef lesið upp víðast hvar og verið virkur fyrirlesari um bókmenntir og skapandi skrif bæði hérlendis og erlendis. Hef til dæmis unnið með Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, skrifað greinar í bókmenntatímarit, fengið allmarga styrki sem tengjast ritstörfunum, hannað og skrifað námsefni fyrir skóla, komið fram á ráðstefnum erlendis, m.a. á Swecon, Worldcon og ICFA, sem allt eru bókmenntaráðstefnur um fantasíur og vísindaskáldskap. Mér var boðið að vera einn af íslensku höfundunum á Bókmenntahátíð í Reykjavík 2015. Ég er einn af stofnendum Icecon: furðusagnahátíðar á Íslandi. Og fleira.
Í október 2016 kom út hjá Bjarti-Veröld káldsagan Víghólar. Hún gerist í sagnaheimi sem ég byrjaði að þróa meðfram skrifum á síðustu bók þríleiksins; sagnaheimi sem byggir á hliðstæðu Íslandi þar sem heimar vættanna eru raunverulegir en afar fáir geta sett sig í tengsl við þá. Segja má að sagan sé blanda af fantasíu, sakamálasögu og íslensku raunsæi. Aðalpersónurnar eru mæðgurnar Bergrún og Brá, staurblankur miðill og rótlaus dóttir hennar. Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar, bókin fékk einróma lof gagnrýnenda og Sagafilm þróar sjónvarpsþáttaröð eftir henni. Hér má lesa meira um bókina.
Árin 2017 og 2018 komu Sólhvörf og Nornasveimur út hjá Bjarti-Veröld, en bækurnar eru sjálfsæð framhöld Víghóla og fengu einnig glimrandi dóma. Sögu mæðgnanna Bergrúnar og Brár er ekki lokið. Fjórða og síðasta bókin er í vinnslu.
Árið 2018 kom einnig út rafræna og gagnvirka leikjabókin Stjörnuskífan: Ævintýri og vísindi, sem er samstarfsverkefni mitt og hugbúnaðagerðarinnar Gebo Kano. Árið 2019 kom svo út leikjabókin Sögusteinninn: Þjóðhættir í hulduheimum. Fyrir bæði verkefnin hlutum við þróunarstyrk námsgagna. Fyrir Sögusteininn hlutum við Menningarstyrk Jóhannesar Nordal.
Árin 2019 og 2020 gaf ég ekkert út en skrifaði ógnarmikið. Þróaði nokkrar hrollvekjur. Storytel á Íslandi hafði samband 2020, útgáfa Storytel Original var að hefjast, og spurðu hvort ég hefði hugmyndir. Úr því spannst gæfuríkt samstarf og frá janúar 2021 hafa komið út fjórar skáldsögur eftir mig undir merkjum Storytel Original: Ó, Karítas, Hælið, Dauðaleit og Bannhelgi. Tvær fyrrnefndu eru hrollvekjur, þær síðarnefndu eru crime-horror innan sömu seríu, sem kallast Myrkraverk.
Á síðustu misserum hef ég skrifað allnokkur handrit fyrir Sagafilm, t.d. 6 þátta frumsamda seríu. Ekkert hefur verið framleitt enn, slíkt getur tekið mikinn tíma. Það er í vinnslu.
Árið 2021 kom út löng smásaga á ensku eftir mig í safnritinu The Best of World SF 1. Spin-off saga út frá sögu Bergrúnar og Brár. „Kynjaskepnan“ eða „The Cryptid“ fjallar um skepnufræðinginn Aldísi og þráhyggjuleit hennar að Lagarfljótsorminum. Aldís og aðstoðarmaður hennar eru aukapersónur í Víghólum, Sólhvörfum og Nornasveimi. Og verða það áfram í síðustu bókinni.
Þegar þetta er skrifað, haustið 2023, er margt í loftinu. Margt sem ekki er tímabært að tala um, en ég get lofað því að það er allt saman afar spennandi. Meira síðar …