Myrkraverk (Dauðaleit, Bannhelgi o.fl.)
Dauðaleit og Bannhelgi eru glæpa-hrollvekjur, eða crime-horror, sem komu út sem Storytel Original 2022 og 2023. Viðtökurnar hafa verið gífurlega jákvæðar. Serían kallast Myrkraverk. Þriðja bókin er í vinnslu og áætlaður útgáfudagur er á haustmánuðum 2024.
„Hér kemur Emil Hjörvar með virkilega hrollvekjandi glæpasögu sem hittir beint í mark. Spennan helst alla leið til loka bókarinnar og hið dulræna er ekki langt undan … Sagan er virkilega spennandi, svo mikið að hún greip undirritaða frá fyrstu stundu og olli því að lesið var inn í nóttina með tilheyrandi afleiðingum á þreytustig næsta dags. Það má segja að það sé vísbending um góða, spennandi bók.“ – Lestrarklefinn.is
„Dauðaleit heldur manni frá upphafi til enda … Átti erfitt með að slíta mig frá söguþræðinum … óhætt að mæla með henni fyrir hrollvekju- og spennusagnaaðdáendur.“ – Morgunblaðið
„Emil Hjörvar fer létt með að skapa spennandi söguþráð sem gengur vel upp. Þótt þræðir sögunnar séu óteljandi eru langflestir þeirra hnýttir. Höfundur missir svo til aldrei boltann í söguþræðinum, sem heldur athygli lesandans allan tímann … Í Hælinu er nútíminn listilega vel tengdur fortíðinni með faraldra að vopni … Emil Hjörvar veitir lesendum skáldaða og sjónræna innsýn í þann veruleika sem þeir sem þjáðust af sjúkdómunum tveimur gætu hafa þurft að kljást við og er frásögn hans af því nokkuð sannfærandi … Mæðgurnar Ugla og Gréta, aðalsöguhetjurnar, eru fremur vel skapaðar og er sambandið á milli fjölskyldumeðlimanna sterkt og trúverðugt … Það má hiklaust mæla með Hælinu fyrir spennufíkla og áhugafólk um dulræn öfl.“ – RÞ, Morgunblaðinu
„Ég hafði gaman af því að láta hræða mig með Hælinu … hrollvekjandi og virkjaði ímyndunaraflið svo um munaði.“ ‒ KL, Lestrarklefinn.is
Bannhelgi er hröð og óhugnanleg spennusaga sem gefur Dauðaleit ekkert eftir. Hún er uppfull af hasar, óvættum og raunverulegri ógn. Það kom mér í raun á óvart hversu uppfull af snúningum og óvæntum atburðum hún innihélt. Lesanda sem þyrstir í myrka og dulræna spennusögu verður alls ekki fyrir vonbrigðum. – Lestrarklefinn.is
Hælið og Ó, Karítas
Hælið kom út sem Storytel Original, bæði á prenti og sem hljóðbók. Ó, Karítas kom út í janúar 2021 sem hljóðbók — fyrsta Storytel Original skáldsagan á Íslandi. Hælinu væri best lýst sem sögulegri hrollvekju. Ó, Karítas væri best lýst sem þjóðlegri hrollvekju, þ.e. folk horror. Hér eru káputextarnir:
Allt virðist leika í lyndi hjá verslunarstjóranum Uglu, eiginmanni hennar og unglingum þeirra tveimur. Þau eru nýflutt inn í glæsilega íbúð í námunda við gamla Kópavogshælið og lífið gengur sinn vanagang. Fljótlega fara þó afar undarleg atvik að eiga sér stað sem Uglu grunar að tengist óreglusömum nágranna fjölskyldunnar, listamanninum Hrafni Vuong.
Ástandið versnar, veruleikinn er annar en hann sýnist og þegar Ugla er á barmi taugaáfalls fær hún skilaboð frá konu sem vistuð var á Kópavogshæli áður en því var lokað. Fjölskyldan er í mikilli hættu.
Hælið er hrollvekjandi og listilega fléttuð skáldsaga sem hrífur lesandann með sér á óhugnanlegt flakk um bæði tíma og rúm, þar sem drepsóttir fortíðar og aftökur í voginum koma við sögu.
Flutningurinn til Búðardals á að marka nýtt upphaf fyrir meistarakokkinn Braga og unglinga hans tvo, Elísu og Láka. Erfiðleikana vilja þau skilja eftir í borginni. Þau flytja inn í gamalt hús við sjóinn, Bragi tekur við rekstri veitingastaðar og gistiheimilis og hrífst furðu fljótt af konu í þorpinu, hinni dularfullu Karítas. Það líður þó ekki á löngu þar til tekur að bera á undarlegum atburðum í húsi fjölskyldunnar að næturlagi, atburðum sem hafa vægast sagt mikil áhrif á Braga og unglingana. Hvaða ókennilegu öfl leynast í Búðardal, þorpi sem við fyrstu sýn virtist svo friðsælt?
Ó, Karítas er hrollvekja og dulrænn tryllir sem fær hárin til að rísa og rígheldur hlustendum frá fyrstu sekúndu.