„Kynjaskepnan“ er ný smásaga eftir mig sem ég býð öllum að lesa hér og/eða hlaða niður sem ókeypis rafbók. Sagan sprettur úr sama heimi og skáldsögurnar Víghólar og Sólhvörf sem komu út hjá Veröld, en forlagið gefur einnig smásöguna út. „Kynjaskepnan“ segir frá Aldísi Auðunsdóttur skepnufræðingi og dvergnum Nýráði Njálssyni, aðstoðarmanni hennar. Þeim brá fyrir í Víghólum, hjálpuðu Bergrúnu og Brá á einum tímapunkti en hurfu að svo búnu á braut til að sinna verkefninu sem fjallað er um í þessari smásögu: að reyna að sanna tilvist Lagarfljótsormsins sem talinn er dauður vegna mengunar. Nýráður leikur einnig nokkuð stórt hlutverk í Sólhvörfum.

Gjörið svo vel, hér er sagan á PDF: Kynjaskepnan


 

Sagt er að ormurinn sé horfinn. En aldrei hefur verið sannað að hann sé eða hafi verið til. Er þá hægt að segja að hann sé horfinn? 

* * * *

Fyrir utan hrörlegt bátaskýli situr Nýráður Njálsson, smjattar á harðfiski og viðrar efasemdir sínar. „Aldís, hvað sagði skógarvörðurinn nákvæmlega? Verður þér óhætt að kafa?“

Í síðdegissólinni glampar á kúluhattinn hans, gauðslitinn garm sem dvergurinn bónar tvisvar á dag. Þrátt fyrir athugasemdirnar er þessi undarlegi vélvirki sá eini sem hefur trú á verkefninu. Hann var sá eini sem svaraði auglýsingu minni eftir aðstoðarmanni.

Nýráður rífur harðfiskflakið í tvennt og býður mér annan helminginn. Garnirnar gaula eftir annasaman dag en ég hef samt enga lyst og afþakka.

„Sko,“ segi ég og dreg seiminn. „Hann fullyrti að ef ég klæddist þéttum þurrgalla ætti ég að geta verið hálftíma í vatninu án þess að eiga á hættu að veikjast. Reyndar hélt ég að það yrðu tveir tímar eins og síðast. Þetta verður knappara en ég hélt.“

„Nægir ekki að skoða sig um frá kafbátnum?“

„Vatnið er of gruggugt. Ég verð að geta rýnt almennilega í botninn. Auk þess þarf að taka sýni ef við komumst á sporið, ef við finnum ummerki um orminn. Ég verð að kafa — þarf að ræða það eitthvað frekar?“ Þegar ég beiti fyrir mig minni víðfrægu staðfestu, sem kollegar mínir í skepnufræðunum hafa lýst sem þvermóðsku, ypptir dvergurinn öxlum og heldur áfram kjamsinu.

Furðufugl, litli rauðbrúni kafbáturinn minn, flýtur við bryggjuna og rétt hjá stendur flutningabíllinn minn. Við Nýráður erum búin að yfirfara stýribúnaðinn í bátnum og aðgæta að allar lokur, ventlar, skrúfboltar og krækjur séu á sínum stað. Tannhjólin í nýju firnavélinni eru smurð og myrkrasteinninn innan í henni ætti að vera rétt stilltur. Þetta er sérstök myndavél sem kostaði mig morðfjár, en með henni ætti mér að takast að ná góðum myndum af hinu yfirnáttúrulega.

Allt er til reiðu. Allt verður að vera til reiðu.

Að öllum líkindum verður þetta síðasta rannsóknarferð mín í Lagarfljót. Vaxandi mengunin frá álverinu hefur hægt og bítandi brenglað fæðukeðjuna á svæðinu. Mengunarslys fyrir fimm árum fór nærri því að ganga af öllu lífi dauðu í vatninu. Grafnar tunnur með úrgangi frá álverinu skemmdust þegar öflugur jarðskjálfti reið yfir, viðbjóðurinn lak út í jarðveginn, niður í fljótið og ruddi sér leið inn í hringrás gróðurríkisins og dýralífsins. Með tímanum breyttist vatnið og varð gegnsýrt af óæskilegum efnum og er nú orðið eitrað, ertandi og skaðlegt dýrum og mönnum. Spurningar hafa vaknað um hvort eitthvað annað en ál sé einnig framleitt í verinu. Undanfarið ár hefur dauðum fiskitorfum skolað upp á land og eflaust líður ekki á löngu þar til skógurinn byrjar að sýna ummerki lekans.

Nýráður skimar yfir skóginn og lygnt fljótið. Undan hattinum og frakkakraganum glittir í hrjúfa húðina. Hann hefur rakað af sér allt skegg og reynir að leika hlutverk smávaxinnar mannveru; sem dvergur í Mannheimi reynir hann að dyljast.

„Ef við finnum ekkert, hvað þá?“ spyr hann.

Líkt og hann lít ég yfir svæðið. Augu mín reika frá breiðu visnaðra lúpína, sem munu taka aftur við sér með sumrinu, niður að grárri fjörunni.

„Þá gætu þau haft rétt fyrir sér,“ dæsi ég. „Kannski er ormurinn horfinn. Eða dauður. Eða þeim mun verra, kannski hefur hann aldrei verið til. Þriggja ára rannsóknarvinna fer í vaskinn, flestöll gögn sem ég hef aflað verða gagnslaus og ég mun eiga litla von um að verða fastráðin hjá Rannsóknarmiðstöð skepnufræða, auk þess sem möguleikar mínir til að krækja mér í styrki minnka — og ekki voru þeir miklir fyrir.“ Örvæntingarfull bæti ég við: „Doktor Aldís Auðunsdóttir skepnufræðingur þyrfti að finna sér aðra vinnu.“

„Aðra vinnu? Hvílík örlög,“ skopast Nýráður.

Kankvís vaggar hann í átt til mín þar sem ég sit á bekk við viðarborð, hálfklædd í þurrgallann með öryggishjálminn og nýju sérhönnuðu köfunargrímuna mér við hlið. Gríman er lambhúshetta úr gúmmíi með sjóngleri og hún á að vera nógu vel einangruð til að húð mín komist ekki í snertingu við vatnið. Ekkert loft kemst inn eða út nema í gegnum slönguna frá loftkútnum, en slangan er fest við munnstykki á lambhúshettunni.

„Er ekki komið að þessu? Við verðum að nýta birtuna,“ bendir hann á. „Sagðirðu ekki að talið sé að ormurinn sé á ferli seint á daginn og fram á kvöld?“ Hann drepur fingri á þykka möppu á borðinu. Út úr henni standa horn á gulnuðum blöðum.

„Svo segja sumar sögur, en ekki allar.“ Ég stend upp, tosa gallann upp yfir mitti og berst við að klæða mig í ermarnar. Það krefst leikni að koma mínum löngu handleggjum og skönkum fyrir inni í búningnum. „Sumir segjast hafa séð orminn að nóttu til, aðrir undir morgun.“

„En ekkert hefur verið sannað hvað það varðar, ef ég skil þig rétt. Ekki hægt að vita fyrir víst hvort það sem menn sáu hafi raunverulega verið kynjaskepnan.“

Ég jánka því til staðfestingar. „Rennum einu sinni enn yfir þetta áður en við förum niður.“ Ég opna möppuna og blaða í henni.

* * * *

Kynjaskepnur eru yfirnáttúruleg dýr úr Hulduheimi. Skepnurnar sem hafast við í okkar heimi hafa oft ratað yfir mörkin fyrir slysni og ekki komist til baka. Það er markmið okkar skepnufræðinga að finna þær og rannsaka í því skyni að kortleggja og skilja dýraríki Hulduheims betur, og jafnvel varpa nýju ljósi á dýraríki Mannheims. Eftir að dvergurinn Nýráður hafði samband við mig opnaðist fyrir þann möguleika að fara yfir í Hulduheim og rannsaka þar, en margar hættur myndu fylgja slíkri för og því treysti ég mér ekki þangað yfir, ekki strax, kannski síðar. Auk þess hefur Nýráður sagt að hann vilji frekar starfa í heimi mannanna. Líkt og mér finnst honum áhugavert hvernig kynjaskepnurnar hafa aðlagast aðstæðunum hérna.

Til að komast upp úr flokki ímyndaðra þjóðsagnavera þurfa tvö eða fleiri áreiðanleg vitni að hafa komið auga á kynjaskepnu samtímis, auk þess sem að minnsta kosti ein ófölsuð ljósmynd af henni verður að liggja fyrir. Tilvist skepnunnar er síðan sönnuð endanlega með því að láta greina lífsýni hjá Rannsóknarmiðstöðinni.

Í tilviki Lagarfljótsormsins hafa ekki nógu margir verið viðstaddir í einu þegar ormurinn hefur látið sjá sig og enginn hefur náð af honum nægilega góðri mynd. Ormurinn telst því enn þjóðsagnavera.

Allajafna ræðst það af hentisemi hvenær fólk kýs að taka sögur um kynjaskepnur trúanlegar. Þegar svo ber undir er það ýmist til að státa sig af sérkennum byggðarlaga eða til að fá ferðamenn til að seilast lengra ofan í vasa sína. Nú kemur enginn að Lagarfljóti lengur sökum mengunar og sagan um orminn hefur glatað aðdráttaraflinu. Hann hefur verið afskrifaður.

Fólk vill sjaldan viðurkenna að þjóðsögur byggja oft á raunverulegum atburðum; frásögnum sem varðveist hafa í munnmælum og tekið breytingum í leiðinni. Mörgum þykir óþægilegt að hversdeginum þeirra sé raskað með yfirnáttúru og í þessum hraða nútíma gefa fáir sér tíma til að horfast í augu við hið ankannalega og flestu því sem er öðruvísi er ýtt til hliðar.

Í samanburði við fjölda skriflegra og munnlegra heimilda um álfa, huldufólk og drauga eru til sárafáar heimildir um kynjaskepnur. Ástæðan gæti meðal annars verið sú að sumar skepnanna eru með eindæmum mannfælnar og hafa því sjaldan sést, en einnig sú að þeir sem sáu mannýgar skepnur lifðu ekki af. Dularfull hvörf fólks, þá og nú, gætu að hluta til tengst kynjaskepnum. Í þeim örfáu tilvikum sem raunverulegar kynjaskepnur ógna mannlífi eru skepnubanar fengnir til að vega þær. Slíkt er ekki í mínum verkahring, sem betur fer, því ég veit ekki hvort ég hefði það í mér að vega yfirnáttúruleg dýr, eða dýr yfirhöfuð.

Þrátt fyrir hversu stórkostlegar kynjaskepnur geta verið virðast fleiri hafa áhuga á álfum og huldufólki, en ekki til dæmis skuggaböldrum, fjörulöllum, skeljaskrímslum, nykrum og vatnaormum. Almenningur og yfirvöld skilja enn ekki hversu mikilvægt starf skepnufræðinga er. Þetta er ekki aðeins spurning um þekkingu, heldur einnig um almannaheill og fyrirhyggju.

Fjárveitingar til skepnufræða eru af skornum skammti og því er samkeppnin í kreðsunni mikil. Til að ná forskoti í rannsóknum á Lagarfljótsorminum hef ég þurft að leggja mikið undir; ég hef lagt nótt við nýtan dag í að viða að mér öllum mögulegum sögum um hann, allt frá fyrstu skráðu frásögninni í annál frá árinu 1345 til sögusagna samtímans, auk þess sem ég hef ferðast vítt og breitt um landið til að rannsaka aðra vatnaorma, til dæmis svarta Kleifarvatnsorminn á Reykjanesskaga. Hann er aðeins rétt um þrír metrar á lengd, en sagt er að Lagarfljótsormurinn sé mun stærri og ég trúi því.

Undanfarin þrjú ár hef ég kafað sjö sinnum í Lagarfljóti og tel mig hafa fundið þrjú haldbær ummerki um orminn. Þau eru:

1. Ryðgaður tveggja metra langur keðjubútur sem gæti verið af búnaðinum sem ormurinn var bundinn með á fyrri hluta fjórtándu aldar. Vitanlega fannst ekkert lífrænt efni af kynjaskepnu á keðjunni, enda búin að vera í vatni í mörg hundruð ár. Sagan segir að tveir göldróttir Finnar hafi verið fengnir til að drepa orminn en áttað sig fljótt á því að það væri þeim ómögulegt og tekist að festa hann við botninn í staðinn. Önnur saga segir að Finnunum hafi ekki heppnast ætlunarverkið, ormurinn leyst sig úr læðingi á síðustu stundu og þeir verið étnir.

2. Hrúga af dýrabeinum á tíu metra dýpi. Beinin voru illa farin, hægt var að greina bitför og enn héngu kjötflyksur á beinunum. Ég er ekki í vafa um að dýrahræjunum hefur verið sankað þarna saman og étin af stórri skepnu. Ef ormurinn var að verki þýðir það að hann sé farinn að leita upp á land eftir æti, enda ekki mikið eftir af því í vatninu. Myndirnar sem ég tók af beinunum með gömlu myndavélinni voru ekki góðar, vélin léleg og myndirnar teknar í gegnum kýrauga á kafbátnum. Þegar ég kafaði sjálf seinna þann dag, til að freista þess að ná í eitthvað af beinunum, voru þau horfin. Ormurinn er slyngur. Hann hlýtur að hafa orðið mín var.

3. Hellismunni hjá ósnum, á mörkum fljótsins og stöðuvatnsins. Í skrám skepnufræðinga sem leituðu ormsins á árum áður kemur ekkert fram um þennan helli. Mín tilgáta er sú að hann hafi verið hulinn undir vatnagróðri sem nú er horfinn vegna mengunarinnar. Ef ormurinn heldur til í hellinum þyrfti ég sérútbúnað og meiri mannafla til að fara inn í hann, bæði vegna hættunnar sem getur stafað af orminum og dýptarinnar. Í öryggislínu ætti ég þó nú að geta komist fáeina metra ofan í hann. Síðast þegar ég kafaði þarna var köfunarbúnaðurinn farinn að gefa sig þegar að hellinum var komið og ég farin að finna töluvert fyrir þrýstingnum. En nú er ég með betri búnað og hef bætt köfunarþolið. Hellirinn er efst á lista hjá mér yfir það sem þarf að kanna, að öllu óbreyttu.

Enn flokkast þessi ummerki undir vísbendingar en ekki sönnunargögn. Liðið hjá Rannsóknarmiðstöðinni vill fá betri gögn áður en samþykkt verður að gera með mér fulla rannsókn á orminum með teymi og betri útbúnaði. Þau telja orminn hafa horfið eða dáið af völdum mengunar, það er að segja ef hann var þá til, en ég er þess fullviss að hann er hér enn. Í sumum frásögnum er talað um að hann sé eitraður. Hvers vegna getur sá möguleiki ekki verið fyrir hendi að hann sé ónæmur fyrir öðrum eiturefnum? Eða að hann þoli jafnvel mengunina hvort sem hann er eitraður eða ekki?

Nú er ástandið í vatninu þannig að venjuleg köfun án sérhæfðs búnaðar er á barmi þess að vera ómöguleg. Fjármunir mínir uppurnin. Ég hef lagt allt undir. Þetta er síðasta tækifærið.

Áform okkar Nýráðs eru að þræða Lagarfljót á kafbátnum, alla leið upp að stöðuvatninu, Leginum. Ég hætti mér ekki sjálf ofan í vatnið nema við sjáum eitthvað mjög bitastætt. Þessar þrjátíu mínútur í kafi sem ég hef upp á að hlaupa gætu ráðið úrslitum um framtíð mína. Ugglaust verður þetta tæpt. Þótt nýi þurrgallinn sé betri en sá gamli grafa eiturefnin sig í gegnum hann samt sem áður.

* * * *

„Athugaðirðu kjölfestugeymana?“ kalla ég aftur fyrir mig svo glymur í kafbátnum.

„Það var það fyrsta sem ég gerði,“ svarar Nýráður aftur úr vélarúminu.

Vélin hummar og veggirnir hristast; Furðufugl tekur að syngja. Ég handfjatla skriðmælinn og dýptarmælinn, þríf blett af framrúðunni og tek því næst varlega utan um handföngin á stýribúnaðinum án þess að hreyfa við þeim, líkt og óperudraugur sem undirbýr orgelið sitt.

„Er þá ekki allt til reiðu?“

„Það held ég nú!“ Dvergurinn sest másandi við hliðina á mér og strýkur svitann af enninu án þess að taka niður hattinn. Fyrir aftan okkur eru tvö önnur sæti; það mega vera fjórir í bátnum, en þeirri tölu hefur aldrei verið náð.

„Þá leggjum við í hann!“ segi ég.

„Krossa fingur?“

„Já, krossum fingur.“

Vatnsgeymarnir taka að fyllast. Bryggjan, bátaskýlið og skógurinn hverfa smám saman og við tekur auðnin undir yfirborðinu. Þegar við nálgumst botninn náum við tökum á flotkraftinum. Túrbínan snýst, skrúfan aftan á bátnum einnig, við siglum áfram í kafi á meðan vellandi vatnið í kring spilar fyrir okkur sorgarsöng um lífið sem bærðist í því áður en álverið reis.

Það sem fyrir augu ber út um framrúðuna er tilkomulítið. Moldar- og rykagnir líða um, einstaka plastrusl strýkur rúðuna og dauðir þörungar og slý rótast upp af botninum eftir því sem við förum dýpra.

Endrum og sinnum tekur Nýráður um stýripinna á sæti sínu og stillir ljóskastarana á kafbátnum framanverðum.

Tannhjólin í firnavélinni gnísta fíngerðum tönnunum. Við höfum ekki séð mikið en ég tek samt myndir af öllu sem sker sig úr, til dæmis af förum í sandinum og brotnum steinum. Síðustu krónurnar fóru í þetta apparat svo það er eins gott að nýta þessar hundrað myndir sem myrkrasteinninn á að rúma.

Ferð okkar upp fljótið er mestanpart tíðindalítil. Það er ekki fyrr en við nálgumst stöðuvatnið að ég get sýnt Nýráði eitthvað áhugavert.

„Þarna fann ég beinahrúguna.“ Ég bendi út um framrúðuna.

„Hvar?“

„Þarna, í bugðunni sem liggur að hamrinum. Hamarinn er hluti af löngum og hníptum klettavegg sem nær niður í djúpan dal, dýpsta hluta fljótsins, hundrað og tólf metrar ef ég man rétt.“

„Hvað er þarna niðri?“

„Myrkur aðallega. Ég og fyrirrennari þinn sáum ekkert markvert þar síðast.“

„En átti orminum ekki að hafa verið sökkt þar sem dýpst er?“

„Jú. En þarna var ekkert. Allavega ekki síðast þegar ég fór. Og þarsíðast …“

„Viltu þá sleppa því að fara þangað niður núna?“

„Ég efast um að við fyndum eitthvað. Betra að spara gallann.“

„Þá höldum við áfram.“

„Já, við höldum áfram.“

Við eigum enn eftir að kanna helminginn af austurhluta fljótsins en óþolinmæði mín dregur okkur að hellismunnanum, þar sem hamarinn endar í ósnum milli fljótsins og stöðuvatnsins. Mótstraumur fljótsins er ögn harðari í ósnum og því vörpum við akkerum og látum okkur fljóta upp. Sveimum nú aðeins fimm metrum undir yfirborðinu.

Nýráður klórar sér af áfergju á vöngum líkt og hann væri með skegg, eflaust er það af gömlum vana. „Þessi hellir virðist liggja niður á við. Ef þú gerir mistök gætirðu fallið ofan í allt of mikið dýpi. Þrýstingurinn dræpi þig.“

Í gegnum gruggugt vatnið stari ég niður í hellinn, niður í hyldýpið og það starir á móti. „Það veit ég vel. En hallinn er ekki það mikill fremst og ég ætti ekki að þurfa að fara langt inn fyrir. Ef ormurinn fer hér reglulega inn og út hljóta að leynast ummerki um hann við munnann.“

Nýráður horfir vantrúa á mig en ég lít ákveðin á hann á móti.

„Ætlarðu virkilega að kafa núna?“ spyr hann.

„Já,“ svara ég hiklaust.

„En við eigum eftir að kanna allt stöðuvatnið. Hvað ef þú finnur ekkert þarna niðri og búnaðurinn verður ónothæfur, en svo sjáum við síðar eitthvað áhugavert sem þarf að kanna nánar?“

Viðbrögð hans koma mér á óvart.

„Hvers vegna hefurðu þessar áhyggjur? Ég borgaði þér fyrirfram, þú ert kominn með þín laun og þarft aðeins að fylgja fyrirskipunum mínum.“

„Er það ekki augljóst?“ Nýráður hækkar róminn. „Ég er vélvirki með mikla þekkingu á frumstæðum vélum og tækni míns heims, en ekki Mannheims. Þið eruð komin mun lengra áleiðis á því sviði en við, því meginþorri þeirra sem þið kallið vættir telur sig ekki háðan tækni, lætur töfrana nægja. Eins og ég sagði við vinkonu þína miðilinn og dóttur hennar, er ég hér til að fræðast. Tækni mannfólks, einkum hátækni sem mengar lítið, er töfrar í okkar augum, sérstaklega hjá dvergum vegna þess að við búum yfir litlum töfrum. Ef þú sannar tilvist ormsins verður þú betur sett og getur haldið rannsóknunum áfram. Og við myndum starfa áfram saman … er það ekki?“

„Að sjálfsögðu! Afsakaðu truntuskapinn í mér.“

„Ég hef trú á þessu. Öll gögnin þín, allar þessar sögur, öll þessi vinna — ætlarðu að fórna öllu fyrir eina fljótfærnislega köfun? Ég vil aðeins velta upp öðrum möguleikum áður en þú ferð í vatnið hérna.“

„Þetta er ekki fljótfærni.“ Ég athuga snöggvast hvort göt eða rispur séu á gallanum og finn blessunarlega ekkert. „Sjö sinnum hef ég siglt fram og aftur í fljótinu og alltaf hefur það verið sama sagan; ég hef fundið fátt markvert, nema að síðast uppgötvaði ég hellinn. Það var í lok köfunar og orðið of seint að fara ofan í hann, gallinn og gríman farin að gefa sig. Ef ég gægist núna hlýt ég að finna eitthvað.“

Nýráður virðist enn ekki vera sannfærður en hann hreyfir ekki fleiri mótbárum.

„Viltu vinsamlegast lengja í akkerinu og tæma úr geymunum,“ segi ég.

Dvergurinn gerir það og báturinn mjakast upp á yfirborðið. Á meðan set ég á mig loftkútinn, klæði mig í köfunargrímuna og festi hana kyrfilega við gallann.

* * * *

Tekið er að kvölda. Frá heiðskírum himni varpar sólin rauðgulum geislum á vatnið svo það glitrar. Fögur sjón. En vatnið undir yfirborðinu er engan veginn fagurt. Þar sem ég stend ofan á Furðufugli sem marar hálfur í kafi ýkir þögnin í logninu upp hljóðin sem ég gef frá mér: andardrátt minn bakvið grímuna og brakið í gallanum þegar ég athuga loftkútinn, blöðkurnar, tólin sem hanga í beltinu og öryggislínuna sem Nýráður festi á mig.

Þá er komið að þessu. Nú er að duga eða drepast.

Áður en ég fer ofan í vatnið segi ég í litla talstöðvarhljóðnemann á vanganum: „Þú manst að slaka út línunni, láta bátinn sökkva niður til mín, taka myndir og lýsa leiðina!“

„Já!“

Ég sekk. Og sekk. Finn gallann leggjast upp að húðinni og kuldann og þrýstinginn aukast. Sólarglæturnar ná varla í gegnum mengunarlagið og vatnið dekkist með hverjum metranum niður á við.

Í fyrstu syndi ég fylgdarlaust við myrkan botninn. Kveiki á ljósinu ofan á öryggishjálminum en það lýsir ekki langt.

„Fljótur, Nýráður. Tíminn er naumur.“

En hann svarar ekki. Hvað á þetta að þýða, er talstöðin búin að gefa sig? Djöfulsins drasl.

Kjölurinn á kafbátnum kemur loks í ljós, lofbólurnar leika við Furðufugl, akkeriskeðjan dregst inn, öryggislínan dansar á milli okkar. Ég syndi fram á við.

Lít aftur upp og sé inn um framrúðu kafbátsins. Þar inni situr Nýráður einbeittur við stjórnvölinn og stýrir ljóskösturunum á hellismunnann með íburðarmikla firnavélina í kjöltunni.

Leið mín er upplýst.

Ég ber hanskaklædda höndina að grímunni. Grunnir skurðir eru komnir í efnið á þurrgallanum, þó er það ekki byrjað að flagna.

Sundið að hellinum er stutt en ég fer mér hægt, ég þoli þrýstinginn en verð samt að fara varlega. Vatnsniðurinn dýpkar, andardrátturinn verður örari, ég verð að halda rónni.

Hringlaga hellisopið er staðsett í örlitlum halla og því er mér mögulegt að fara grunnt inn án þess að falla ofan í hyldýpið. Óðara sem Nýráður veitir mér nægt ljós læt ég mig líða inn í hellinn.

Bergið er sléttara og sleipara en ég hafði búist við. Með blöðkunum næ ég engri fótfestu, en mér tekst að stilla mig af og ná flotjöfnun með því að taka í öryggislínuna. Bergið er slétt — gæti það þýtt að það hafi smám saman tekið á sig þessa mynd eftir óramargar ferðir ormsins inn og út í gegnum aldirnar? Ég verð að taka sýni.

Úr beltinu tek ég hamar, meitil og lítið box í bandi. Á meðan ég hamra flísar úr berginu og set í boxið tek ég eftir því að ysta lag ermanna er byrjað að flagna. Ég get ekki dundað mér við þetta lengi. Verð að finna eitthvað annað, eitthvað sem gæti flokkast sem afgerandi sönnun fyrir tilvist ormsins. Lít á klukkuna sem er áföst erminni. Ellefu mínútur eru liðnar síðan ég fór í vatnið. Nítján mínútur til stefnu.

Mér tekst að mjaka mér einn metra niður til viðbótar. Rétt fyrir framan mig hallar hellirinn næstum þverhnípt niður, inn í óþekktan sortann. Ég kemst ekki lengra.

Er þetta allt og sumt? Ekkert fleira sem ég get gert? Það getur ekki verið. 

Ég reisi mig betur við og skoða veggina báðum megin við mig. Á vinstri hönd er eitthvað … ég færi mig nær …

Þarna er kista! Föst í gati á veggnum. Hún er að mestu úr ryðguðum málmi og lamir og festingar eru þaktar spanskgrænu.

Nei, getur það verið? Er þetta kistan? Hin eina sanna?

Í óðagoti missi ég stjórn á flotjöfnuninni, en rétt áður en ég sekk dýpra tekst mér að teygja langan handlegginn inn í gatið og ná taki á handfangi á hlið kistunnar og hífa mig aftur upp.

Kistan situr pikkföst. Ég toga og toga en allt kemur fyrir ekki. Það er engu líkara en henni hafi verið þrýst inn í holuna af miklu afli. Aftur tek ég upp hamarinn og meitilinn og tek til við að berja í sundurryðgaðan málminn, sem tekur nokkrar dýrmætar mínútur.

Núna eru átján mínútur liðnar. Liturinn á gallanum er ekki lengur koparrauður, heldur grár með svörtum rákum hér og hvar.

Í gegnum gat á kistunni dreg ég út gömul föt: vegleg pils, svuntu, höfuð- og hálsklúta, skrautbelti, forláta hálskraga — aldagömul föt heldri konu.

Nú kemur sér vel að vera svona mikill sláni. Ég teygi höndina lengra inn og róta í kistunni. Skyndilega ljúkast fingur mínir um harðan smáhlut, ég gríp um hann og dreg höndina út úr kistunni, út úr holunni. Í lófanum held ég á einhvers konar glingri.

Gullnæla!

Er sagan þá sönn …?

Deilt hefur verið um hvort um gullhring eða gullnælu hafi verið að ræða. En hér er næla. Í helli. Sem hlýtur að vera dvalarstaður ormsins.

Upprunalega sagan um Lagarfljótsorminn segir að stúlka í sveitinni hafi fengið gullglingur (nælu, greinilega) að gjöf frá föður sínum, ríkum bónda og landeiganda. Stúlkan hafði heyrt að ef ormur væri lagður ofan á gull myndi mikill fjársjóður vaxa að ári liðnu. Í sakleysi sínu fann hún það sem hún hélt vera ósköp venjulegan lyngorm og setti hann með gullnælunni í tréöskju og geymdi í fatakistunni sinni. Viku seinna opnaði hún kistuna til að gá hvernig ástatt væri fyrir orminum. Þá hafði tréaskjan sprungið í spað, ormurinn stækkað og lét öllum illum látum. Fólkið á bænum fór þá með orminn í fatakistunni, út á vatnið og sökkti honum þar sem það var dýpst. Í framhaldi voru Finnarnir tveir fengnir til að kljást við sívaxandi orminn.

Það fylgir þó ekki sögunni hvort ormurinn sem stúlkan fann hafi verið vatnaormur, það er að segja kynjaskepna á stangli, ef til vill ungur ormur sem villst hafði yfir í Mannheim. Það er erfitt að segja til um hvers vegna hann varð svona gríðarlega stór eins og sögur segja. Það gæti orðið áhugavert að rannsaka seinna meir, ef sýnin og nælan verða til þess að Rannsóknarmiðstöðin ákveður að styðja við bakið á mér. Bara ef við Nýráður hefðum séð orminn og náð mynd af honum, þá hefði þetta verið alveg borðleggjandi. Vonandi finnst eitthvað lífrænt í bergflísunum.

Svo upprifin er ég yfir þessari uppgötvun að ég gleymi næstum hvað tímanum líður. Ég hef aðeins sjö mínútur til stefnu! Verð að gefa Nýráði merki um að draga mig upp. Verð að koma mér upp á yfirborðið áður en búningurinn leysist upp. Ekki vil ég hætta á lífshættulegan húðskaða og veikindi.

Á leiðinni út úr hellinum velti ég því fyrir mér hvers vegna kistan sé hérna. Kom ormurinn henni fyrir? Gæti hún mögulega haft tilfinningalegt gildi fyrir hann? Tengir hann uppruna sinn við kistuna?

* * * *

Ljósin fyrir ofan mig blikka ört.

„Já, Nýráður, ég veit það, ég er tæp á tíma,“ muldra ég með sjálfri mér. Ég gef honum merki um að draga mig upp.

Þótt það strekkist á öryggislínunni halda ljóskastararnir á kafbátnum áfram að blikka. Hvað er að dvergnum?

Í ljósblossunum sé ég hvar Nýráður, kófsveittur, veifar og patar höndum á milli þess sem hann stýrir ljóskösturunum. Hann virðist kalla, jafnvel öskra hástöfum. Firnavélin liggur fyrir framan hann á mælaborðinu.

Hvert bendir hann? Þaðan sem við komum? Í átt að djúpa dalnum? Hvert er hann að beina öðrum ljóskastaranum?

Einmitt þegar líf mitt og starf hefur öðlast ríkari tilgang er ég komin í bráða lífshættu.

Ormurinn hefur verið þráhyggja hjá mér, hann hefur verið í draumum mínum í mörg ár. Núna sé ég hann en það lítur út fyrir að ég muni ekki komast héðan til að segja frá því.

Í senn verð ég klökk, agndofa og logandi hrædd.

Ógurleg skepna nálgast mig. Langur búkurinn liðast eins og gríðarstór og breið hringiða. Fjögur hreistruð bægsli blaka hægt en fleyta skepnunni hratt áfram. Opið ginið sýnir inn í eiturgrænan góminn, iðandi tungan beinist að mér, tennurnar eru fjölmargar og hver þeirra á stærð við fullvaxta dverg. Lagarfljótsormurinn gefur frá sér mikið öskur sem ég heyri illa en hljóðbylgjurnar berast með vatninu og skella á líkama mínum, dynja á sjónglerinu.

Í örvæntingu veifa ég til Nýráðs, en það þjónar engum tilgangi; hann gerir nú þegar allt sem í hans valdi stendur til að draga mig upp. Hægt — of hægt — hífist ég í öryggislínunni upp að kafbátnum.

Ég hangi í línunni eins og veiðibráð föst í gildru. Ormurinn nálgast óðfluga. Er þetta mín hinsta stund?

Vonandi mun ég ekki þjást. Í stað þess að missa stjórn á tilfinningum mínum og brotna niður gef ég Nýráði ósjálfrátt merki um að taka myndir, sem hann gerir með firnavélina liggjandi á mælaborðinu, með aðra hönd á stjórntækjunum. Ef hann kemst óhultur upp á yfirborðið gæti hann séð til þess að verk mín lifi áfram, sýnt að ég hafi lagt mitt af mörkum í skepnufræðunum, séð til þess að mín verði minnst.

Ég stari ofan í ginið á Lagarfljótsorminum. Milli tannanna eru ferskar kjötleifar.

Skyndilega nemur hann staðar og horfir rannsakandi á mig og Furðufugl til skiptis, beinir höfðinu og löngum hálsinum til beggja hliða. Svo virðist sem hann telji sér standa meiri ógn af kafbátnum en mér. Dökk augun eru smá miðað við stærðina á öðrum líkamshlutum. Úr þeim les ég að hann búi yfir töluverðum vitsmunum, öfugt til að mynda við skeljaskrímsli sem lifa við litla vitsmuni en harðgera líkamsgerð.

Með krafti og snerpu ræðst risavaxinn ormurinn á kafbátinn, læsir tönnunum í skrokkinn og tekur að ýta honum skáhallt upp á yfirborðið, í átt að fjörunni, líkt og hann sé að henda óboðnum gesti út. Enda er fljótið og stöðuvatnið hans heimili, hans heimur.

Ég sé hvar Nýráður flýgur aftur fyrir sig og firnavélin kastast af mælaborðinu í vegg og brotnar í spað. Andskotinn. Myndirnar áttu að negla sönnunina á tilvist kynjaskepnunnar.

Hangandi í öryggislínunni kippist ég með upp og slengist í bergið í hallanum með þeim afleiðingum að loftkúturinn springur og boxið með bergflísunum sundrast — sýnin eru glötuð! Eina loftið sem er eftir er í munnstykki grímunnar, ég dreg inn andann og held honum niðri, en það er fjarri því að vera auðvelt þar sem ég vingsast um í vatninu.

Lagarfljótsormurinn þrykkir Furðufugli harkalega upp eftir botninum, grjót ryðst úr vegi uns báturinn staðnæmist uppi á yfirborðinu, í fjörunni.

Á meðan á því stendur gefst mér augnabliks ráðrúm til að hugsa.

Hvers vegna sýnir ormurinn sig núna? Hvað er það sem dregur hann að okkur?

Og þá kveiki ég á perunni. Gullnælan! Hann hlýtur að tengjast henni sérstökum böndum. Í rannsóknum mínum og heimildavinnu hef ég komist að því að vatnaormar eru nurlarar; þeir safna verðmætum í greni sín og kjassa þau og sleikja. Þannig merkja ormar sér fjársjóðinn með vessum og geta skynjað hann úr fjarlægð, fylgst með hvort hreyft er við honum. Ég hefði haldið að verðmæti Lagarfljótsormsins væru djúpt ofan í hellinum, en kistan og innvols hennar hljóta að vera hans dýrmætustu eignir. Það er spurning hvort hann geymi kistuna svona ofarlega til að geta nálgast hana fljótt þegar hann ferðast um fljótið og haft unun af því að stinga tungunni í holuna.

Gullnælan hlýtur að vera orminum kærust, hann byrjaði að vaxa ofan á henni og hún er ástæða þess að hann er hérna.

Hvað var ég að hugsa með því að taka hana? Hvers vegna hugsaði ég ekki út í þetta fyrr? Ákefð mín blindaði mig og núna stend ég andspænis dauðanum. Ég get varla haldið andanum lengur niðri.

Ormurinn sleppir takinu á kafbátnum og smjattandi snýr hann sér að mér þar sem ég flýt upp í átt að yfirborðinu. Eftir að hafa átt við kafbátinn virðist ormurinn ekki jafn æfur og hreyfingarnar orðnar rólegri. Hann liðast upp að mér, staðnæmist, þrýstir mér ögn lengra ofan í vatnið með halanum og horfir stíft á næluna. Opnar svo kjaftinn og býr sig undir að glefsa í mig.

Í ráðaleysi veifa ég nælunni yfir höfði mér. Hún glitrar eilítið í þeirri litlu kvöldsólarglætu sem tekst að brjótast niður í vatnið. Ormurinn hættir við glefsið, lokar kjaftinum og fylgir nælunni eftir með augunum.

Þá sveifla ég handleggnum eins langt aftur fyrir mig og ég get og sleppi nælunni. Með furðulega fíngerðum hreyfingum grípur ormurinn hana í skoltinn, geymir hana þar og lygnir aftur augum. Halann notar hann nú til að strjúka næluna.

Samstundis spyrni ég mér upp á við og klifra í hallanum upp að yfirborðinu. Loftið helst ekki í lungunum á mér lengur, þau hafa gjörnýtt súrefnið.

Ég lít snöggt um öxl og sé Lagarfljótsorminn sveima ofurhægt í grynningunum líkt og hann sé annars hugar. Svo opnar hann augun og skotrar þeim til mín, en hann virðist þó ekki ætla að veita mér eftirför.

Í sömu andrá rís ég upp úr vatninu og skríð upp á fjörubakkann, reyni að standa upp en er orðin kraftlaus eftir átökin. Sé ekki neitt vegna móðu á glerinu. Ekkert loft kemst inn, get ekki andað. Reyni að losa um festingarnar aftan á öxlunum. Tekst ekki. Er að kafna. Fell aftur fyrir mig.

„Aldís!“ Dempuð rödd Nýráðs smýgur inn í meðvitundina. Hann veltir mér yfir á magann og byrjar undireins að reyna að losa um festingarnar. „Ekki reyna að hreyfa þig. Vertu kyrr!“

Hann er of lengi að þessu. Ég nota síðustu orkuagnirnar til að teygja mína löngu arma aftur fyrir bak og reyni aftur að losa grímuna frá gallanum …

Loksins. Loksins fyllast lungun af svölu og röku vorlofti. Ég tek ör og mikil andköf. Skjálfandi kasta ég grímunni frá mér og hlæ taugaveikluðum hlátri. Hugur minn byrjar að skýrast aftur. Ég mætti orminum, sá hann loksins, komst frá því lifandi en glataði sýnunum og nælunni og firnavélin brotnaði. Var þetta þá allt til einskis? Er ferli mínum sem skepnufræðingi lokið?

Andlit Nýráðs birtist yfir mér, allt í skrámum. Enn er hann með kúluhattinn á sér. „Við sáum hann! Er … er allt í lagi með þig?! Við sáum hann!“

Ég lít fram hjá Nýráði og bendi út á vatnið þar sem höfuð Lagarfljótsormsins stendur hálft upp úr. Kynjaskepnan starir illúðleg á okkur og virðist bíða eftir augnsambandi. Í fáein augnablik horfumst við í augu þar til ég átta mig á því hvað ormurinn er að gera: hann er að segja okkur að við séum ekki velkomin aftur. Að svo búnu hverfur hann aftur ofan í djúpið. Hann virtist ekki vera hungraður, af kjötflyksunum í tönnunum að dæma var hann nýbúinn að éta, en hann hefði engu að síður getað skriðið á land og tætt okkur í sig. Ef til vill er hann feginn því að hafa endurheimt næluna og lætur þar við sitja.

„Við sáum hann,“ segi ég dauflega, „en getum við sannað það? Við erum ekki með neitt í höndunum.“

Nýráður seilist í innri frakkavasann og tekur fram dökkbláan tindrandi stein. „Firnavélin brotnaði,“ segir hann skælbrosandi, „en það gerði myrkrasteinninn hins vegar ekki. Og sjáðu,“ hann bendir á Furðufugl sem liggur beyglaður á hlið í fjörunni með opna topploku, „sjáðu holurnar. Bitförin.“

Götin mynda hálfhring á vinstri hlið skrokksins og þar að auki eru fáeinar holur á kilinum. Kafbáturinn er gjörónýtur — en þetta gæti verið lán í óláni.

„Þú átt við að við gætum kannski fengið sýni úr holunum?“

„Og ekki bara það.“ Nýráður haltrar að bátnum. „Sérðu hana ekki?“

Másandi klöngrast ég á fætur, færi mig nær og sé þá brotna tönn standa upp úr efstu holunni.

Tönn úr orminum: lífræn sönnun. Myndirnar af því yfirnáttúrulega sem myrkrasteinninn geymir: sjónræn sönnun.

Ég klappa hendi á öxl aðstoðarmannsins míns. „Nýráður minn Njálsson. Núna látum við liðið hjá Rannsóknarmiðstöðinni éta ofan í sig efasemdirnar. Lagarfljótsormurinn er til og við getum sannað það!“

* * * *

Síðar munum við snúa hingað aftur og gera ítarlegri athuganir með betri búnaði. Ormurinn hótaði okkur með augnaráði sínu, en ávinningurinn er engu að síður einnig hans. Með sönnun á tilvist frægustu kynjaskepnu landsins gæti Rannsóknarmiðstöð skepnufræða þrýst á stjórnvöld að láta hreinsa vatnið í fljótinu og þannig yrði heimkynnum ormsins komið í fyrra horf. Þegar aðdráttarafl Lagarfljóts hefur verið endurheimt flykkjast ferðamenn væntanlega hingað að nýju, sem einhverjir munu græða á, en stundum dugar ekkert annað en að lofa áhrifafólki gulli og grænum skógum í staðinn fyrir sjálfsagða náttúru- og yfirnáttúruvernd.

Þótt einhverjir komi til með að mala gull á orminum á hann vonandi eftir að geta lúrt áfram í leyni á sínu gulli. Um ár og aldir.


© 2017 Emil Hjörvar Petersen

Útgefandi: Veröld

Reykjavík 2017

www.verold.is

Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti,svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda.